Garðalundur. 1944 afhendir Akranesbær Skógræktarfélaginu land fyrir innan Garðatúnið sem nú er Garðalundur. Um vorið fór Hálfdán Sveinsson með nokkra unglinga inn á þetta svæði og byrjar að gróðursetja víði- og birkiplöntur en aðrar plöntur voru ekki fáanlegar. Þetta staðarval var af sumum talið óheppilegt vegna fjarlægðar frá bænum. Guðmundur Jónsson var ráðinn til bæjarins sem garðyrkjuráðunautur árið 1947. Hann gekk strax til liðs við Skógræktarfélagið og var formaður þess frá 1947 til 1968. Hann skipulagði og gróðursetti í Garðalundi og vann mikið og merkilegt starf, oft við lítinn skilning bæjarbúa sem margir höfðu litla trú á trjárækt á Akranesi. Gróðursetning greniplantna á þessu svæði hefst ekki fyrr en 1953 en þær voru gróðursettar í skjóli víðis og birkis sem var á skurðbakkanum við norðurhluta svæðisins.
Garðalundur er nú í umsjá Akranesbæjar.